Drægni rafbíla á íslandi

Drægni

Drægni er sú vegalengd sem rafbílar geta ekið á einni hleðslu og er fólki ofarlega í huga þar sem það telur hana helst takmarkandi fyrir notagildi þeirra, samanborið við hefðbundna eldsneytisbíla. Drægnin virðist því vera einn stærsti óttinn hjá almenningi í að færa sig yfir á rafbíl.


Samt sem áður má finna rafbíla með yfir 700 km drægni og meðalakstur Íslendinga á dag er um 35- 50 km. Það má því segja að það sé mjög lítil fyrirstaða fyrir flesta við að kaupa rafbíl út frá þessum þáttum, langflestir ættu að geta sinnt sínum daglegum erindum og vel það.

Það eina sem rafbíllinn á erfiðara með að uppfylla á sama hátt og eldsneytisbíllinn er að skila okkur í fjarlægustu landshorn í einum áfanga. Tækninni hefur fleygt mikið og hratt fram er varðar hleðslustöðvar og hleðslugetu rafbíla. Nýir rafbílar hafa getu til að notast við svokallaðar hraðhleðslustöðvar (50-150 kW) sem hlaða á mun skemmri tíma og eru að finna um allt land á algengum stoppistöðvum.


Þeir sem aka um á Teslu geta nýtt sér Teslu hleðslustöðvarnar sem eru enn kraftmeiri eða um 250 kW. Því er auðveldlega hægt að hlaða bíla á skömmum tíma eða á meðan maður fær sér að snæða eða fer í gott kaffistopp. Til gamans má geta að það hefur einnig verið sett upp sannkölluð ofurhraðhleðslustöð sem getur hlaðið á allt að 350 kW og getur skilað 200 km drægni á einungis 5 mínútum! Sú hleðslustöð getur aðeins verið nýtt af örfáum bílum en er til marks um hvað koma skal í mjög náinni framtíð.


Raundrægni

Drægni sem gefin er upp fyrir hverja rafbílagerð er miðuð við ákveðna staðla og eru þeir þrír; NEDC (evrópskur staðall), EPA (bandarískur staðall) og WLTP (alþjóðlegur staðall). Sá síðastnefndi þykir áreiðanlegastur þar sem hann tekur inn fleiri áhrifaþætti heldur en hinir tveir.


Raundrægni er hins vegar sú vegalengd sem rafbíll getur ekið út frá þeim ytri aðstæðum sem keyrt er í og aksturslagi ökumanns. Líkt og rafgeymar á bensínbílum, rýrna afköst rafhlaðna í kulda og á Íslandi má reikna með um 10-30% rýrnun á drægni (fer eftir bílatýpum).

Til eru lausnir við að draga úr rýrnun á drægni, til að mynda er varmadæla sérstaklega góður búnaður fyrir íslenskar aðstæður og getur aukið aksturslengdina um 15%. Við hjá Bensínlaus veitum ráðlagningar á bæði bílavali og búnaði sem gott er að hafa í bílnum við íslenskar aðstæður.


Einnig er gott að hafa í huga að hægt er að draga úr rýrnuninni með því að temja sér gott og jafnt ökulag, til að mynda forðast rykki, miklar inngjafir og hemlanir sem eru afar orkukrefjandi.


Noregur er einkum framarlega í rafbílavæðingunni. Rafbílasamtökin “Norsk elbilforening” hafa gert rannsóknir á raundrægni ýmissa rafbíla við norskar aðstæður sem má heimfæra yfir á íslenskar aðstæður. Á heimasíðu þeirra má nálgast upplýsingar um drægni mismunandi rafbíla.