Almennings hleðslustöðvar

Fjöldi almenningshleðslustöðva vex ört og má finna um allt land sem minnkar fyrirstöðu landans á að taka það stóra skref að skipta yfir í 100% rafbíla ásamt aukinni drægni. Ýmis fyrirtæki bjóða orðið viðskiptavinum sínum og starfsmönnum upp á hleðslustöðvar á bílastæðum sínum og mörg bensínfyrirtæki hafa hafið samstarf eða keypt hleðslustöðvar fyrir stöðvar sínar. Það má því finna rafhleðslustöðvar á mörgum stöðum á Íslandi í dag.


Flestar almenningshleðslustöðvar hér á landi eru frá ON (Orku náttúrunnar) eða Ísorku. Hentugt er að hlaða niður appinu þeirra beggja til að skoða hvar má finna hleðslustöðvar þeirra, hvers konar týpa hleðslustöðin er og hvort þær séu lausar til notkunar. Einnig er N1 með sér kort fyrir sínar stöðvar en þeir eru í samstarfi við Tesla og hafa sett upp nokkrar Tesla hraðhleðslustöðvar um landið. ON rekur aðeins eigin hleðslustöðvar og hafa fast verð á meðan stöðvarnar frá Ísorku eru flestar seldar áfram til fyrirtækja og því gæti verð og útlit þeirra verið mismunandi.


Verðin eru að öllu jöfnu frá 20 kr. upp í 50 kr. á KWst og tímagjaldið frá 0-20 kr. mínútan. Hægt er að næla sér í ýmis afsláttarkort eða lykla til að fá hagstæðara verð. Til að mynda býður ON upp á 20% afslátt af rafhleðslu og rafmagn á heimili ef rafbílaeigandi kaupir rafmagn af ON fyrir heimili og með ON lykil.


Benda má á að ON og Ísorka eru á mismunandi stöðum á landinu og því gott er að hafa það í huga þegar kemur að því að ákveða hvar er hentugast fyrir þig að vera með hleðslulykil.


Hér á þessu korti má sjá almenningshleðslustöðvar á Íslandi.